„Þetta verður erfitt“

Aron Einar verður í eldlínunni með Cardiff í ensku úrvalsdeildinni …
Aron Einar verður í eldlínunni með Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í vetur. mbl.is/Eggert

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verður einn þriggja íslenskra knattspyrnumanna sem leika í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Aron komst upp með liði sínu Cardiff en var reyndar meiddur þegar liðið fagnaði úrvalsdeildarsætinu í maí. Svo gæti farið að hann tæki ekki þátt í fyrstu leikjum tímabilsins eftir erfitt sumar þar sem HM í Rússlandi tók sinn toll.

„Þetta sumar tók mikið á. Ég fékk ekki þetta dæmigerða hlé til að jafna mig eftir meiðslin í lok síðasta tímabils, svo ég hef hægt og rólega verið að byggja mig upp. Það tekur tíma og sjúkraþjálfarinn hér hjá Cardiff hefur verið mjög varkár og viljað vinna þetta þannig, sem ég tel rétt í stöðunni. En ég er ferskur í hausnum og hlakka til,“ segir Aron. Cardiff sækir Bournemouth heim í fyrsta leik á morgun.

Vel gert að halda Frey inni

Landsliðsfyrirliðinn verður vonandi kominn á fulla ferð eftir mánuð þegar Ísland leikur sína fyrstu leiki í Þjóðadeildinni, undir stjórn Svíans Eriks Hamréns. Aron tekur undir að mikil eftirsjá sé að Heimi Hallgrímssyni en hljómar ánægður með valið á arftaka hans:

„Ég er á því að KSÍ hafi gert vel. Það segir sig sjálft að það er alltaf erfitt og skrýtið að fara úr þjálfara sem hefur gert vel og náð góðum árangri í einhverjar áherslubreytingar. Ég held að KSÍ hafi gert vel með því að halda Freysa [Frey Alexanderssyni, aðstoðarlandsliðsþjálfara] í kringum þetta, til að halda í okkar hefðir og útskýra fyrir nýjum þjálfara hvernig við höfum gert hlutina. Ég tel að það sé jákvætt. Mér líst vel á nýjan þjálfara. Auðvitað les maður það sama og aðrir, frá Svíþjóð og allt það, en það er bara þannig, fólk hefur skoðun á þjálfurum rétt eins og á leikmönnum.“

Viðtalið við Aron má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert