Þrír leikmenn á förum frá Arsenal?

Unai Emery er tilbúinn að losa sig við þá leikmenn ...
Unai Emery er tilbúinn að losa sig við þá leikmenn sem hann ætlar ekki að nota. AFP

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, greindi frá því í dag að þrír leikmenn væri að öllum líkindum á förum frá félaginu. Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir David Ospina, Joel Campbell og Carl Jenkinson.

Leikmennirnir þrír hafa ekki átt fast sæti í liði Arsenal undanfarin ár, en þeir munu að öllum líkindum yfirgefa félagið á láni en félagaskiptaglugginn á Englandi lokaði í gær. Arsenal hefur leik í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn þegar liðið fær ríkjandi meistara í Manchester City í heimsókn. 

Emery tók við Arsenal í sumar af Arséne Wenger sem lét af störfum. Emery hefur verið duglegur að styrkja leikmannahópinn í sumar og því er ekki pláss fyrir þessa þrjá leikmenn hjá félaginu lengur.

mbl.is