Mourinho á von á góðum tíðindum

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, á von á góðum tíðindum á Old Trafford á næstu dögum.

Mourinho reiknar með því að markvörðurinn David De Gea skrifi undir nýjan samning við Manchester United en núgildandi samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að De Gea muni gera nýjan fimm ára samning sem tryggir honum 350 þúsund pund í laun á viku en sú upphæð jafngildir tæpum 49 milljónum íslenskra króna.

De Gea er 27 ára gamall og kom til Manchester United frá spænska liðinu Atlético Madrid árið 2011. Spánverjinn hefur verið besti leikmaður United-liðsins undanfarin ár og er af mörgum talinn einn besti markvörður heims.

mbl.is