Verðum nú að breyta á milli leikja

Jürgen Klopp er meðvitaður um hve erfiða leikjadagskrá Liverpool á …
Jürgen Klopp er meðvitaður um hve erfiða leikjadagskrá Liverpool á fyrir höndum. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir ljóst að nú reyni á allan leikmannahóp liðsins því fram undan er afar erfið leikjadagskrá.

Liverpool mætir Tottenham á Wembley í hádeginu á morgun þegar keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst að nýju eftir landsleikjahlé. Liðið mætir PSG í Meistaradeild Evrópu á þriðjudag, Southampton eftir rúma viku og svo Chelsea bæði í deildabikar og deild 26. og 29. september. Eftir það leikur liðið við Napoli í Meistaradeildinni og svo við Manchester City 7. október.

Klopp hefur samtals gert eina breytingu á byrjunarliði sínu í fyrstu fjórum leikjum Liverpool á leiktíðinni.

„Við eigum sjö leiki á 23 dögum svo að hópurinn allur verður mjög mikilvægur. Adam Lallana er ekki alvarlega meiddur en verður ekki með núna um helgina. Við reynum að tefla alltaf okkar besta liði fram en miðað við þennan fjölda leikja þá verðum við að gera breytingar á milli leikja,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

Brasilíumaðurinn Fabinho, sem kom til Liverpool í sumar, á enn eftir að spila í ensku úrvalsdeildinni.

„Hann kemur úr annarri deild og allt öðru kerfi en hjá okkur. Við erum með gott lið sem er að spila vel saman en hann á eftir að hjálpa okkur til lengri tíma litið,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert