Jóhann Berg og félagar óvænt úr leik

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar eru úr leik.
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar eru úr leik. Eggert Jóhannesson

Jóhann Berg Guðmundsson og liðsfélagar hans í enska úrvalsdeildarliðinu Burnley eru óvænt úr leik í enska deildabikarnum eftir 2:1-tap fyrir C-deildarliði Burton á útivelli í dag.

Jóhann Berg spilaði allan leikinn fyrir Burnley. Kevin Long kom Burnley yfir á 40. mínútu en Liam Boyce jafnaði fyrir Burton á 62. mínútu og Jamie Allen skoraði sigurmarkið á 83. mínútu. 

Englandsmeistarar Manchester City eru komnir áfram eftir þægilegan 3:0-sigur á Oxford á útivelli. Gabriel Jesus, Riyad Mahrez og Phil Foden skoruðu mörk City. Fulham er einnig komið áfram eftir 3:1-sigur á Millwall á útivelli. 

Callum Wilson var hetja Bournemouth í 3:2-sigri á Blackburn. Hann skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartímans. Blackpool vann svo nokkuð óvæntan 2:0-sigur á QPR og Norwich hafði betur gegn Wycombe Wanderers, 4:3. 

mbl.is