Yarmolenko sleit hásin og verður lengi frá

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri West Ham, athugar með Andriy Yarmolenko eftir …
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri West Ham, athugar með Andriy Yarmolenko eftir að hann var borinn af velli um helgina. AFP

West Ham hefur orðið fyrir áfalli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en í morgun var staðfest að úkraínski landsliðsmaðurinn Andriy Yarmolenko hefði slitið hásin í tapi liðsins fyrir Tottenham um helgina.

Hinn 28 ára gamli Yarmolenko var borinn af velli í fyrri hálfleik um helgina, en hann hafði þá fallið til jarðar án þess að hafa lent í nokkru samstuði. Hann er á leið í aðgerð vegna meiðslanna og þrátt fyrir að West Ham gefi ekki út hvað hann verður lengi frá má reikna með að við taki alla vega sex mánaða endurhæfing.

Yarmolenko gekk í raðir West Ham frá Borussia Dortmund í sumar og kostaði félagið 17,5 milljónir punda. Hann hefur skorað tvö mörk í úrvalsdeildinni á tímabilinu; bæði í 3:1 sigri á Gylfa Þór Sigurðssyni og liði Everton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert