Aron Einar og félagar úr fallsæti

Sol Bamba skoraði sigurmark Cardiff í dag.
Sol Bamba skoraði sigurmark Cardiff í dag. AFP

Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff unnu sinn annan leik á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar Brighton kom í heimsókn í dag. Sigurmark Cardiff kom á lokamínútu leiksins þar sem lokatölur urðu 2:1.

Brighton komst yfir á 7. mínútu þegar Lewis Dunk skallaði aukaspyrnu í netið. Cardiff náði hins vegar að jafna á 28. mínútu þegar Callum Paterson skoraði með skalla eftir flottan sprett Kadeem Harris inn á teiginn. Á 34. mínútu fékk Dale Stephens í liði Brighton að líta beint rautt spjald eftir grófa tæklingu og var Cardiff því manni fleiri það sem eftir lifði leiks.

Aron Einar spilaði allan leikinn og tók við fyrirliðabandi Cardiff á 70. mínútu, en liðinu gekk illa í leit sinni að sigurmarki þrátt fyrir að hafa bætt við sóknarþunga sinn eftir því sem á leið. Það breyttist hins vegar á 90. mínútu þegar Sol Bamba skoraði eftir harða hríð að marki Brighton og innsiglaði 2:1 sigur Cardiff.

Með sigrinum komust Aron Einar og félagar upp úr fallsæti, í það minnsta um stund, og eru nú með átta stig í 16. sæti deildarinnar.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Cardiff 2:1 Brighton opna loka
90. mín. Leik lokið Gríðarlega mikilvægur sigur Arons Einars og félaga!
mbl.is