Engar afsakanir - Þurfum á stigum að halda

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Manchester United hefur ekki unnið leik í ensku úrvalsdeildinni frá því liðið vann Bournemouth á útivelli þann 3. nóvember en United tekur á móti botnliði Fulham í deildinni á morgun.

José Mourinho sat fyrir svörum á vikulegum fréttamannafundi í dag en pressa er á Portúgalanum vegna slaks gengis liðsins. Manchester-liðið er í 8. sæti, 19 stigum á eftir toppliði Manchester City og 8 stigum á eftir Chelsea sem er í fjórða sætinu.

„Engar afsakanir,“ sagði Mourinho í byrjun fundarins. „Ég sat hér fyrir nokkrum vikum og ræddi um desembermánuð og við mættum ekki tapa leik. Það er staðreyndin. Það hefur verið góð barátta í liðinu og góður andi en við höfum aðeins náð að vinna Young Boys og gera þrjú jafntefli í röð í deildinni. Við þurfum á stigum að halda,“ sagði Mourinho.

Mourinho segist ekki vita hvaða leikmönnum hann hefur úr að spila í leiknum á móti Fulham en það muni skýrast betur eftir æfingu liðsins í dag.

„Æfingin í dag mun gefa okkur einhver svör. Við þurfum að meta Chris Smalling, Phil Jones, Anthony Martial og Eric Bailley. Við þurfum ekki að ræða um Victor Lindelöf og Alexis Sánchez. Þeir eru báðir úr leik. Fulham er í sömu stöðu og við. Það þarf á stigum að halda svo þetta verður ekki auðveldur leikur.“

mbl.is