Öruggt hjá United – Aron og Jóhann unnu

Leikmenn Manchester United skoruðu fjögur mörk í dag og unnu ...
Leikmenn Manchester United skoruðu fjögur mörk í dag og unnu öruggan sigur á Fulham. AFP

Fimm leikjum var að ljúka í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Aron Einar Gunnarsson og Jóhann Berg Guðmundsson nældu báðir í þrjú stig með sínum liðum eins og Manchester United og Arsenal, sem þó slapp með skrekkinn.

United tók á móti Fulham á Old Trafford og sýndi sínar bestu hliðar í fyrri hálfleik. Ashley Young, Juan Mata og Romelu Lukaku skoruðu allir fyrir hlé og staðan 3:0 að loknum fyrri hálfleik. Fulham minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 66. mínútu, en aðeins tveimur mínútum síðar missti liðið André-Frank Zambo af velli með sitt annað gula spjald.

Marcus Rashford bætti við fjórða marki United á 82. mínútu og lokatölur 4:1. United fór með sigrinum upp í sjötta sætið með 26 stig en Fulham er á botninum með níu stig.

Aron Einar spilaði allan leikinn með Cardiff sem mætti Southampton í botnbaráttuslag. Eftir markaleysi framan af braut Callum Paterson ísinn fyrir Cardiff á 74. mínútu og tryggði 1:0 sigur. Cardiff er nú í 14. sætinu með 14 stig.

Jóhann Berg var tekinn af velli á 72. mínútu þegar Burnley vann 1:0 sigur á Brighton. Sigurinn var gríðarlega mikilvægur þar sem Burnley komst með honum upp úr fallsæti og situr nú í 17. sætinu með 12 stig.

Arsenal slapp með skrekkinn sig þegar liðið fékk Huddersfield í heimsókn. Á 83. mínútu komst Arsenal loks á blað þegar Lucas Torreira skoraði og tryggði 1:0 sigur. Arsenal komst upp í þriðja sætið og er þar með 34 stig og hefur ekki tapað í 21 leik í röð.

Það var svo markaleikur þegar West Ham vann Crystal Palace 3:2, en öll úrslit og markaskorara má sjá hér að neðan.

Arsenal – Huddersfield 1:0
Torreira 83.

Burnley – Brighton 1:0
Tarkowski 40.

Cardiff – Southampton 1:0
Paterson 74.

Manchester United – Fulham 4:1
Young 13., Mata 28., Lukaku 42., Rashford 82. - Kamara 67. (víti). Rautt spjald: Anguissa (Fulham) 68.

West Ham – Crystal Palace 3:2
Snodgrass 48., Chicharito 62., Anderson 65. - McArthur 6., Schlupp 75.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Man. Utd 4:1 Fulham opna loka
90. mín. Staðfest úrslit í leikjunum fimm: Arsenal - Huddersfield 1:0 Burnley - Brighton 1:0 Cardiff - Southampton 1:0 Man. Utd - Fulham 4:1 West Ham - Crystal Palace 3:2
mbl.is