Botnlið Huddersfield án stjóra

David Wagner, fráfarandi knattspyrnustjóri Huddersfield.
David Wagner, fráfarandi knattspyrnustjóri Huddersfield. AFP

Huddersfield, sem situr á botni ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, tilkynnti nú í kvöld að samkomulag hefði náðst við David Wagner að láta af störfum sem stjóri liðsins.

„Ég veit að þegar talað er um sameiginlega ákvörðun þá er það venjulega svo að viðkomandi hafi verið rekinn. En það er ekki í þessu tilfelli, þar sem þetta var sannarlega sameiginleg ákvörðun. David vill það besta fyrir félagið og telur þetta rétt,“ sagði Dean Hoyle, framkvæmdastjóri félagsins.

Wagner er 47 ára gamall Þjóðverji sem tók við Huddersfield árið 2015 eftir að hafa áður stýrt varaliði Dortmund. Undir hans stjórn fór liðið upp í ensku úrvalsdeildina vorið 2017 og hafnaði í 16. sæti síðastliðið vor.

Huddersfield er nú í neðsta sæti deildarinnar með 11 stig, átta stigum frá öruggu sæti þegar 22 umferðum er lokið. Síðasti leikur liðsins undir stjórn Wagner var markalaust jafntefli við Aron Einar Gunnarsson og lið Cardiff um liðna helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert