Liverpool minnist Ian Ross: Skuggi keisarans

Ian Ross að störfum á hliðarlínunni sem þjálfari KR.
Ian Ross að störfum á hliðarlínunni sem þjálfari KR. mbl.is

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur birt á vef sínum einnar mínútu kveðju tileinkaða Ian Ross, fyrrverandi leikmanni félagsins og síðar þjálfara Vals, KR og Keflavíkur, sem lést um helgina, 72 ára að aldri.

Kveðjuna má sjá hér fyrir neðan og þar er m.a. sagt að Bill Shankly knattspyrnustjóri hefði lýst honum sem leikmanni sem gerði leikinn auðveldari fyrir samherja sína. Þá er minnst á frammistöðu hans í leikjum við Everton og Bayern München þar sem hann hefði tekið enska landsliðsmanninn Alan Ball og vestur-þýska landsliðsfyrirliðann Franz Beckenbauer, „Keisarann“, úr umferð. 

Í kjölfar viðureignarinnar við þann síðarnefnda hefði Ross fengið viðurnefnið „Skuggi keisarans“.

 Þá munu Birkir Bjarnason og samherjar í Aston Villa bera sorgarbönd í leik liðsins gegn Brentford á miðvikudagskvöldið til að heiðra minningu Ross. Hann lék með liðinu frá 1972 til 1976 og var fyrirliði þess þegar það vann deildabikarinn árið 1975. Flaggað er í hálfa stöng á Villa Park vegna andláts Ross.

mbl.is