Ramsey fær 62 milljónir á viku

Aaron Ramsey mun eiga fyrir salti í grautinn.
Aaron Ramsey mun eiga fyrir salti í grautinn. AFP

Miðjumaðurinn Aaron Ramsey er búinn að skrifa undir samning við Ítalíumeistara Juventus og kemur hann til félagsins frá Arsenal næsta sumar. Ramsey fær um 450.000 evrur í vikulaun eða 62 milljónir króna hjá Juventus og gildir samningurinn til fjögurra ára. 

Hann verður launahæsti breski leikmaður sögunnar. Juventus þarf ekki að borga Arsenal fyrir leikmanninn, þar sem hann verður samningslaus eftir tímabilið. Ramsey kom til Arsenal frá Cardiff árið 2008 fyrir tæplega 5 milljónir punda. 

Ramsey ræddi við bæði Barcelona og PSG áður en hann ákvað að ganga í raðir Juventus. Hann hafnaði nýju samningstilboði Arsenal í september síðastliðnum og var félagið ekki reiðubúið að ganga að launakröfum hans. 

mbl.is