Klopp hrósar Solskjær í hástert

Jürgen Klopp hefur mikið álit á Ole Gunnari Solskjær.
Jürgen Klopp hefur mikið álit á Ole Gunnari Solskjær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, býst ekki við neinu öðru en að Ole Gunnar Solskjær verði áfram knattspyrnustjóri Manchester United á næsta tímabili, þar sem hann stendur fyrir allt sem Sir Alex Ferguson stóð fyrir. 

Solskjær er enn að láni hjá United frá Molde, en ellefu sigrar í þrettán leikjum setur Solskjær í sterka stöðu. Leikmenn á borð við Paul Pogba og Anthony Martial eru einnig að spila mun betur undir stjórn Solskjær en þeir gerðu hjá José Mourinho. 

„Ég er ánægður fyrir hans hönd. Hann fékk tækifæri til að sýna hvað hann getur. Það eru ekki góðar fréttir fyrir okkur hversu vel hefur gengið, en afar góðar fréttir fyrir alla sem tengjast Manchester United. Hann stendur fyrir allt sem Sir Alex Ferguson stóð fyrir og United er hættulegt lið," sagði Klopp á blaðamannafundi í dag. 

„Hann er búinn að taka nokkrar góðar ákvarðanir og hann hefur sýnt hversu góður stjóri hann er. Það er engin spurning um að hann verði áfram á næstu leiktíð. Hann á það 100 prósent skilið," bætti Þjóðverjinn við. 

mbl.is