Nýr leikvangur en heimsmet í hagnaði

Tottenham-menn fagna í sigrinum á Crystal Palace í gær í …
Tottenham-menn fagna í sigrinum á Crystal Palace í gær í fyrsta leiknum á nýja Tottenham Hotspur-leikvanginum. AFP

Tottenham setti nýtt heimsmet knattspyrnufélaga með hagnaði sínum á síðustu leiktíð þegar félagið hagnaðist um 113 milljónir punda eftir skatt, eða tæpa 18 milljarða króna.

Tottenham sló þannig Liverpool við sem tilkynnti um 106 milljóna punda hagnað fyrr á þessu ári. Fram kemur í ársskýrslu Tottenham að tekjur félagsins vegna tímabilsins 2017-2018 hafi verið 380 milljónir punda samanborið við 310 milljónir punda árið áður, þökk sé fleiri áhorfendum á Wembley-leikvanginum og því að liðið komst í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Tottenham greindi frá hagnaðinum um leið og félagið opnaði glænýjan heimavöll sinn sem kostaði einn milljarð punda í byggingu, en stór hluti þess kostnaðar var greiddur með lánum.

Tottenham hefur haldið að sér höndum í leikmannakaupum síðustu misseri en inni í tölum frá síðustu leiktíð eru kaup fyrir 116 milljónir punda, en félagið fékk þá til sín Lucas Moura og Serge Aurier frá PSG. Félagið seldi hins vegar leikmenn fyrir 84 milljónir punda og munaði þar mestu um söluna á Kyle Walker til Manchester City.

Tottenham varði á síðustu leiktíð 147 milljónum punda í laun til leikmanna sem er til að mynda hátt í 100 milljónum punda minna en hjá erkifjendunum í Arsenal, og aðeins um helmingur þess sem Manchester United greiddi í laun til leikmanna á sama tímabili.

Tottenham hefur átt ágætu gengi að fagna á yfirstandandi leiktíð og er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar auk þess að vera komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið mætir Manchester City í fyrri leik næsta þriðjudag.

mbl.is