Svo sem ekkert nýtt fyrir mér

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiður Smári Guðjohnsen verður í stóru hlutverki í Sjón­varpi Sím­ans þegar útsendingar hefjast frá ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í ágúst.

Eiður Smári var kynntur til leiks ásamt þeim Tómasi Þór Þórðarsyni, Bjarna Þór Viðarssyni, Loga Bergmann og Margréti Láru Viðarsdóttir á kynningarfundi Sjónvarps Símans í morgun en Sjónvarp Símans hefur tryggt sér sýningarréttinn frá ensku úrvalsdeildinni frá og með næstu leiktíð. Veislan hefst 10. ágúst en Sjónvarp Símans mun sýna 239 leiki í beinni útsendingu og verða með ýmislegt efni í kringum leikina sjálfa og þar á meðal verða þættir Gary Linekers sýndir.

Eiður Smári er öllum hnútum kunnugur um ensku úrvalsdeildina en hann lék eins og flestir vita með Chelsea í mörg ár og eftir að ferlinum lauk hefur hann verið tíður gestur erlendra sjónvarpsstöðva þar sem hann hefur fjallað um ensku úrvalsdeildina.

„Þetta er svo sem ekkert nýtt fyrir mér en það er kannski nýtt fyrir mér að vera kominn í fullt starf. Ég mun koma að þessu allt tímabilið og ég er bara mjög spenntur fyrir þessu. Það er löngu kominn tími á að ég finni mér eitthvað fast að gera. Fyrstu mánuðirnir eftir fótboltaferilinn eru mjög fínir þar sem maður getur verið frjáls ferða sinna en svo finnur maður eftir smá tíma að maður vill hafa hlutina í föstum skorðum og vita að hverju maður gengur.

Nú er ég kominn í þetta starf hjá Símanum auk sem ég er orðinn þjálfari U21 árs landsliðsins. Ég er því kominn úr engri vinnu í tvær sem er virkilega skemmtilegt. Ég hef alltaf vitað að ég yrði á einhvern hátt tengdur fótboltaheiminum,“ sagði Eiður Smári í samtali við mbl.is.

Bjarni Þór Viðarsson, Tómas Þór Þórðarson, Logi Bergmann og Eiður …
Bjarni Þór Viðarsson, Tómas Þór Þórðarson, Logi Bergmann og Eiður Smári Guðjohnsen á kynningarfundi Sjónvarps Símans í dag. mbl.is/RAX

Kemur þú til með að lýsa einhverjum leikjum?

„Nei ég verð meira í sérfræðingahlutverki. Að lýsa leikjum í 90 mínútur liggur ekkert sérstaklega vel fyrir mér. Ég myndi pottþétt missa aðeins einbeitingu. En ég verð mest í leikgreiningum og spá í hvað er að gerast. Ég kem kannski að lýsingum í einhverjum leikjum en þá bara með einverjum öðrum og í hlutverki eins og ég hef verið í kringum landsleikina og eins og ég hef gert erlendis.“

„Það eru uppi hugmyndir að ég verði að staðnum í einhverjum leikjum og ég mun í bland verða hér heima að sinna þessu starfi og erlendis. Það kemur vel til greina að ég taki viðtöl við þjálfara. Ég fékk smá reynslu af því fyrir heimsmeistaramótið í fyrra,“ sagði Eiður Smári.

Áskrift­ar­gjaldið er 4.500 krón­ur mánuði og þarf fólk ekki að eiga önn­ur viðskipti við Sjón­varp Sím­ans. Enski bolt­inn verður innifal­inn í Sjón­varpi Sím­ans Premium og þar verður áskrift­ar­gjaldið 6.000 krón­ur á mánuði en í dag er það 5.000 krón­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert