Solskjær sendir skýr skilaboð

Ole Gunnar var svekktur eftir leik sinna manna gegn Everton …
Ole Gunnar var svekktur eftir leik sinna manna gegn Everton í gær. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United var ekkert að skafa af hlutunum þegar hann ræddi við fréttamenn eftir skell United gegn Everton á Goodison Park í gær.

United tapaði sínum fimmta útleik í röð í öllum keppnum og var frammistaða liðsins á móti Everton hreint út sagt ömurleg en Everton vann verðskuldaðan 4:0 sigur.

Ole Gunnar sendi þeim leikmönnum sem hafa spilað illa skýr skilaboð.

„Ég mun ná árangri hér en það eru leikmenn í þessu liði okkar í dag sem verða ekki hluti af því,“ sagði Ole Gunnar en lærisveinar hans taka á móti Englandsmeisturum Manchester City á miðvikudagskvöld þar sem hver einasti stuðningsmaður Liverpool mun verða á bandi Manchester United í þeim leik.

„Ég bið stuðningsmenn félagsins afsökunar á þessari frammistöðu liðsins. Frá fyrsta flauti fór allt á versta veg og það er erfitt að útskýra þessa frammistöðu vegna þess hversu léleg hún var. Við drógum stuðningsmenn okkar niður sem og félagið,“ sagði Norðmaðurinn.

United á enn möguleika á að enda á meðal fjögurra efstu liða í deildinni. Liðið á eftir heimaleiki gegn Manchester City, Chelsea og Cardiff og útileik á móti Huddersfield. Manchester United er í 6. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Chelsea og Arsenal og þremur stigum á eftir Tottenham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert