Af hverju er Salah í New York að borða pizzu?

Mohamed Salah í sparifötunum í New York.
Mohamed Salah í sparifötunum í New York. AFP

Margir stuðningsmenn Liverpool klóra sér í höfðinu yfir því hvers vegna Mo Salah sé staddur í New York þegar liðið er í kapphlaupi um sigur í ensku úrvalsdeildinni. Salah birti mynd af sér við pizzuát í stóra eplinu á samfélagsmiðlum. 

Skýringin er sú að Salah fór til Bandaríkjanna til að vera viðstaddur kvöldverðarboð sem Time-tímaritið hélt í gærkvöldi. Egyptinn rataði þar inn á 100 manna lista yfir fólk sem tímaritið telur að geti haft mest áhrif á mannkynið um þessar mundir. 

Það sem stuðningsmenn Liverpool setja spurningamerki við er að Salah skuli halda í þetta ferðalag yfir í aðra heimsálfu þegar Liverpool á leik á föstudagskvöldið í deildinni. Þann þriðja síðasta sem liðið spilar í deildinni þetta tímabilið. Tekur Liverpool þá á móti botnliðinu Huddersfield. 


Hér er eitt dæmi um stuðningsmann Liverpool sem hefur áhyggjur af stöðunni. 

mbl.is