Potter orðinn stjóri Brighton

Graham Potter fær nú tækifæri til að sanna sig í …
Graham Potter fær nú tækifæri til að sanna sig í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Enski þjálfarinn Graham Potter, sem þekktastur er fyrir ævintýralegan árangur sem þjálfari smáliðsins Öserstund í Svíþjóð, var í dag kynntur sem nýr knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton.

Potter, sem er 44 ára gamall, tekur við Brighton af Chris Hughton sem var rekinn í síðustu viku þrátt fyrir að hafa tekist að halda Brighton í úrvalsdeildinni. Hughton kom Brighton í fyrsta sinn í úrvasldeildina árið 2017 og í fyrra endaði liðið í 15. sæti, en í ár hafnaði liðið í 17. sæti, tveimur stigum frá fallsæti.

Potter stýrði Östersund í Svíþjóð árin 2010-2018. Undir hans stjórn fór liðið úr fjórðu efstu deild upp í efstu deild í fyrsta sinn. Ekki nóg með það heldur varð liðið svo sænskur bikarmeistari árið 2017, og komst í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA í kjölfarið, og þar upp úr sínum riðli áður en Östersund féll svo út gegn Arsenal.

Potter var svo ráðinn stjóri Swansea fyrir ári síðan og stýrði liðinu til 10. sætis í næstefstu deild Englands í vetur.

Brighton þarf að greiða Swansea 3 milljónir punda í bætur fyrir að hafa náð í stjóra félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert