Enska stjarnan til Evrópumeistaranna

Nikita Parris.
Nikita Parris. Ljósmynd/Manchester City

Enska landsliðskonan Nikita Parris, framherji Manchester City, hefur samþykkt að ganga í raðir sexfaldra Evrópumeistara Lyon í knattspyrnu.

Parris, sem er 25 ára gömul, hefur spilað með Manchester City undanfarin fjögur ár en samningur hennar við enska liðið er að renna út og fer hún til franska stórliðsins án greiðslu.

Parris var valin leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni af blaðamönnum og hún verður í stóru hlutverki með enska landsliðinu á HM í Frakklandi í næsta mánuði.

Lyon varð um síðustu helgi Evrópumeistari fjórða árið í röð eftir sigur gegn Barcelona 4:1 í úrslitaleik sem fram fór í Búdapest í Ungverjalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka