De Gea hafnaði tilboði United

David de Gea.
David de Gea. AFP

Spænski markvörðurinn David de Gea hefur hafnað síðasta tilboði Manchester United að því er enskir fjölmiðlar greina frá í morgun.

De Gea á eitt ár eftir af samningi sínum við United. Forráðamenn félagsins hafa þrýst á Spánverja mánuðum saman að skrifa undir nýjan samning en að því er fram kemur í enska blaðinu The Sun hefur De Gea hafnað síðasta tilboði Manchester-liðsins.

United er ekki reiðubúið að greiða De Gea 350 þúsund í vikulaun en það er sú upphæð sem franska meistaraliðið Paris SG er tilbúið að greiða honum í laun.

Forráðamenn Manchester United eru nú í þeirri stöðu að ákveða það hvort þeir selji Paris SG De Gea fyrir 60 milljónir punda í sumar eða hann fari frá félaginu án greiðslu eftir næstu leiktíð.

De Gea kom til United frá Atlético Madrid árið 2011. Hann hefur heldur betur reynst félaginu góður liðsmaður. Í fjögur skipti á síðustu sex árum hefur hann verið valinn leikmaður ársins en á nýafstöðnu tímabili gerði hann sig sekan um nokkur afar slæm mistök sem kostaði liðið mörg stig.

mbl.is