Vill ekki að Cech spili úrslitaleikinn

Petr Cech.
Petr Cech. AFP

David Seaman fyrrverandi markvörður Arsenal vill að Unai Emery, stjóri Arsenal, sleppi því að láta Petr Cech standa á milli stanganna þegar Arsenal mætir Chelsea í úrslitaleik Evrópudeildar UEFA í fótbolta í Bakú í Aserbaídsjan 29. þessa mánaðar.

Cech hefur varið mark Arsenal í Evrópudeildinni en ekki síst í ljósi þeirra frétta að Cech sé að taka við starfi íþróttastjóra hjá Chelsea í sumar sé það ekki rétt að hann verði í markinu á móti Chelsea að sögn Seamans.

„Ég veit að Cech hefur spilað alla leikina í Evrópudeildinni en í úrslitaleik og sérstaklega á móti Chelsea ætti hann ekki að spila. Arsenal verður að vinna leikinn til að komast í Meistaradeildina. Svo fyrir mér á Arsenal að tefla fram sínu sterkasta liði og ef það þýðir að Leno spilar þá er það eitthvað sem ég myndi vilja sjá,“ segir Seaman.

mbl.is