United hætt að eltast við Bale

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Manchester United er hætt að eltast við að fá Wales-verjann Gareth Bale til liðs við sig frá Real Madrid að því er enskir fjölmiðlar greina frá í dag.

Bale hefur lengi verið skotmark Manchester-liðsins og undanfarnar vikur hefur hann sterklega verið orðaður við United enda er framtíð hans hjá Real Madrid undir stjórn Zinedine Zidane í mikilli óvissu.

Launakröfur Bale og aldur ráða því að hann fellur ekki inn í það mynstur sem félagið leitar að. Bale, sem er 29 ára gamall, gekk í raðir Real Madrid frá Tottenham árið 2013.

Landi Bale, Daniel James, skrifaði í gær undir fimm ára samning við Manchester United en Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, væntir mikils að þessum 21 árs gamla kantmanni.

mbl.is