United vill varnarmann West Ham

Issa Diop er á óskalista Manchester United.
Issa Diop er á óskalista Manchester United. AFP

Manchester United hefur áhuga á að kaupa varnarmanninn Issa Diop frá West Ham. United er reiðubúið að borga 45 milljónir punda fyrir leikmanninn, en að sögn Sky vill West Ham 60 milljónir punda fyrir Diop. 

West Ham keypti Diop frá Toulouse fyrir ári á 22 milljónir punda og stóð hann sig vel á sínu fyrsta tímabili í enska boltanum. United er á höttunum eftir varnarmanni og er Diop alls ekki sá fyrsti sem hefur verið nefndur til sögunnar. 

Kalidou Koulibaly, leikmaður Napoli, kemur einnig til greina, en ítalska félagið vill fá 100 milljónir fyrir hann. Harry Maguire, leikmaður Leicester, er svo falur á 80 milljónir punda. 

United vill einnig bæta við sig hægri bakverði og hefur félagið rætt við Crystal Palace vegna Aaron Wan-Bissaka, en Palace hafnaði 40 milljóna punda tilboði United. Eini leikmaðurinn sem gengið hefur í raðir United til þessa í sumar er kantmaðurinn Daniel James frá Swansea. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert