Gylfi og félagar fá Englandsmeistara

Fabian Delph í búningi Everton.
Fabian Delph í búningi Everton. Ljósmynd/Everton

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton fengu í kvöld nýjan liðsfélaga sem keyptur er af Englandsmeisturum Manchester City í knattspyrnu.

Um er að ræða miðjumanninn Fabian Delph sem kostar Everton um 10 milljónir punda. Hann er kominn til móts við sína nýju liðsfélaga þar sem þeir eru í Sviss í æfingaferð fyrir komandi tímabil, en hann var ekki lengur inni í myndinni hjá Pep Guardiola hjá City.

Delph er 29 ára gamall og var í fjögur ár hjá City sem keypti hann af Aston Villa. Hann á að baki 20 landsleiki fyrir England og var meðal annars með liðinu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi síðasta sumar.

mbl.is