Arsenal gefst ekki upp á Zaha

Wilfried Zaha í leik með Fílabeinsströndinni í Afríkukeppninni.
Wilfried Zaha í leik með Fílabeinsströndinni í Afríkukeppninni. AFP

Enska knattspyrnufélagið Arsenal ætlar ekki að gefast upp í baráttunni um að fá Wilfried Zaha, leikmann Crystal Palace til félagsins. Að sögn Sky mun Arsenal leggja fram annað tilboð í Zaha á næstu dögum.

Palace hafnaði 40 milljón punda tilboði Arsenal í leikmanninn fyrr í mánuðinum og vill fá 80 milljónir fyrir sóknarmanninn. Palace hefur annars lítinn áhuga á að selja Zaha, eftir að hafa selt Aaron Wan-Bissaka til Manchester United á 50 milljónir punda í sumar. 

Zaha vill yfirgefa Crystal Palace og hefur hann tjáð forráðamönnum félagsins um ósk sína. Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Palace, virtist hinsvegar ekki hafa miklar áhyggjur á að Zaha myndi yfirgefa félagið, er hann var spurður eftir 1:0-tapið fyrir Nottingham Forest í æfingaleik á dögunum. 

Arsenal er einnig á höttunum á eftir Keiran Tierny, vinstri bakverði Celtic í Skotlandi. Skoska félagið hafnaði 18 milljón punda tilboði Arsenal fyrr í sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert