Verður ekki hjá Dortmund að eilífu

Jadon Sancho hefur slegið í gegn með Borussia Dortmund.
Jadon Sancho hefur slegið í gegn með Borussia Dortmund. AFP

Jadon Sancho, sóknarmaður þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, verður ekki hjá félaginu að eilífu samkvæmt stjórnarformanni félagsins, Hans-Joachim Watzke. Sancho var afar eftirsóttur í sumar eftir frábært síðasta tímabil með Dortmund en þessi enski leikmaður skoraði 12 mörk og lagði upp önnur 17 í 34 leikjum í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð.

„Það eru ekki margir 19 ára gamlir strákar í heiminum í dag sem eru jafn hæfileikaríkir,“ sagði Watzke í samtali við þýska fjölmiðla. „Hann er heldur ekki strákur sem kemur upp í gegnum unglingastarf okkar eða á rætur að rekja til Þýskalands. Við þurfum að skoða stöðuna með hann eftir hvert einasta tímabil og þannig verður það áfram þangað til hann fer.“

„Ef erlendur leikmaður sem spilar fyrir Dortmund er ekki sannfærður um að hann vilji vera hérna eigum við að sjálfsögðu að leyfa honum að fara, ef hann kýs það sjálfur. Við munum hins vegar ekki láta hann fara á útsöluverði því við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að hann verður ekki hjá Dortmund að eilífu,“ sagði Watzke.

mbl.is