Var bálreiður áður en hann tók vítið

Rui Patricio ver vítið frá Pogba.
Rui Patricio ver vítið frá Pogba. AFP

Manchester United og Wolves gerðu 1:1-jafntefli er þau mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Anthony Martial kom United yfir í fyrri hálfleik en Ruben Nevez jafnaði fyrir Wolves í seinni. 

Paul Pogba fékk glæsilegt tækifæri til að skora sigurmark United, en hann nýtti ekki vítaspyrnu á 68. mínútu. Spyrnan hjá Pogba var föst en Rui Patricio í marki Wolves varði mjög vel.

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og sjónvarpsmaður hjá Sky, var ekki sáttur við framkvæmd spyrnunnar. 

„Ég var bálreiður áður en hann tók vítið. Ég er ekki viss af hverju hann tók vítið. Hann og Rashford voru að ræða hvor þeirra átti að taka vítið. Af hverju eru þeir að ræða það? Það var enginn leiðtogi á vellinum og þetta er ekki rétt. 

Fyrsta sem ég hugsaði væri að Pogba væri sjálfselskur og væri að taka vítið af Rashford, en svo skoðaði ég vítið á móti Chelsea í síðustu umferð og þá var sama saga. Pogba og Rashford spjölluðu lengi saman um hvor ætti að taka vítið. Það er furðulegt," sagði Neville eftir leikinn. 

mbl.is