United fundar með Twitter

Paul Pogba varð fyrir kynþáttafordómum eftir að hafa brennt af …
Paul Pogba varð fyrir kynþáttafordómum eftir að hafa brennt af vítaspyrnu gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni á mánudaginn síðasta. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United munu á næstu dögum funda með forráðamönnum samfélagsmiðilsins Twitter en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Forsaga málsins er sú að Paul Pogba, miðjumaður United, varð fyrir miklu kynþáttaníð á samfélagsmiðlinum eftir að hann brenndi af vítaspyrnu í leik United og Wolves á mánudaginn síðasta.

Leiknum lauk með 1:1-jafntefli og mistókst Pogba að tryggja United öll þrjú stigin í leiknum, eitthvað sem fór mjög illa í ákveðna notendur samfélagsmiðilsins. „Á næstu dögum munu forráðamenn Twitter setjast niður með forráðamönnum Manchester United og fleiri fulltrúa knattspyrnuhreyfingarinnar sem hafa áhuga á því að sparka fordómum burt úr íþróttinni,“ sagði talsmaður Twitter í samtali við Sky Sports.

„Twitter er á móti hvers kyns fordómum og við höfum unnið jafnt og þétt að því að útrýma fordómum á okkar miðli í gegnum tíðina. Fordómar af hvers kyns tagi verða ekki liðnir lengur og við munum nú leggjast í ákveðna verkefnavinnu með félögunum og knattspyrnuhreyfingunni um það hvernig við getum útrýmt þessu alveg úr boltanum,“ sagði talsmaður Twitter ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert