Everton tapaði á suðurströndinni

Lewis Cook hjá Bournemouth í baráttu við Richarlison og Gylfa …
Lewis Cook hjá Bournemouth í baráttu við Richarlison og Gylfa Þór Sigurðsson í leiknum í dag. AFP

Bournemouth lagði Everton að velli, 3:1, í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en leikið var á Vitality-leikvanginum í Bournemouth.

Gylfi Þór Sigurðsson lék fyrstu 70 mínúturnar með Everton sem er nú í 11. sæti deildarinnar eftir fimm umferðir með 7 stig. Bournemouth er komið upp í áttunda sætið, einnig með 7 stig.

Staðan var 1:1 í hálfleik en Callum Wilson kom Bournemouth yfir með skallamarki á 23. mínútu og Dominic Calvert-Lewin jafnaði með skallamarki fyrir Everton á 44. mínútu eftir fyrirgjöf hjá Richarlison.

Ryan Fraser kom Bournemouth í 2:1 með marki beint úr aukaspyrnu á 68. mínútu. Gylfa var skipt af velli hjá Everton á 71. mínútu og á 72. mínútu skkoraði Callum Wilson sitt annað mark þegar hann slapp inn fyrir vörn Everton, 3:1.

Tveir leikir fara fram í úrvalsdeildinni í dag en klukkan 15.30 hefst leikur Watford og Arsenal.

Byrjunarlið Bournemouth: Ramsdale, Stacey, Cook, Ake, Rico, Billing, Cook, Wilson, Solanke, Wilson, King.

Byrjunarlið Everton: Pickford, Coleman, Keane, Mina, Digne, Delph, Schneiderlin, Richarlison, Gylfi Þór, Iwobi, Calvert-Lewin.

mbl.is