Tilbúnir að gera Mané að launahæsta leikmanni Liverpool

Sadio Mané.
Sadio Mané. AFP

Liverpool er í viðræðum við senegalska sóknamanninn Sadio Mané um framlengingu á samningi hans við félagið en frá þessu greina breskir fjölmiðlar í dag.

Mané gerði nýjan samning við Liverpool í nóvember á síðasta ári og er samningsbundinn félaginu til ársins 2023. Með þeim samningi tryggði hann sér 150 þúsund pund í laun á viku eða sem jafngildir rúmlega 23 milljónum króna.

Nú er forráðamenn Liverpool sagðir vilja framlengja samninginn við Senagalann til ársins 2025 og gera hann að launahæsta leikmanni félagsins með 220 þúsund pund í vikulaun en sú upphæð jafngildir 34 milljónum króna. Mohamed Salah er launahæsti leikmaður Liverpool með 200 þúsund pund á viku og þar á eftir koma Virgil van Dijk og Roberto Firmino með180 þúsund pund.

Mané, sem er 27 ára gamall og kom til Liverpool frá Southampton fyrir þremur árum, hefur byrjað tímabilið afar vel og hefur skorað sex mörk í sjö leikjum en hann skoraði 26 mörk í öllum keppnum með Liverpool á síðasta ári og endaði sem markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar ásamt samherja sínum, Mohamed Salah, og Pierre-Emerick Aubameyang úr Arsenal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert