Munnlegt samkomulag í höfn

Mario Mandzukic mun að öllum líkindum skrifa undir í Manchester …
Mario Mandzukic mun að öllum líkindum skrifa undir í Manchester í janúar á næsta ári. AFP

Mario Mandzukic hefur gert munnlegt samkomulag við enska knattspyrnufélagið Manchester United um að ganga til liðs við félagið í janúar á næsta ári en það er ítalski fjölmiðillinn Tuttosport sem greinir frá þessu.

Mandzukic var nálægt því að ganga til liðs við United í sumar en framherjinn frá Króatíu er orðinn 33 ára gamall. Hann hefur leikið með Juventus frá árinu 2015 en hann hefur ekkert komið við sögu í ítölsku A-deildinni á þessari leiktíð.

Það er nóg af sóknarmönnum í herbúðum Juventus og Maurizio Sarri, stjóri Juventus, virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að nota framherjann sem á að baki 117 leiki fyrir Juventus þar sem hann hefur skorað 30 mörk.

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manhcester United, hefur verið aðdáandi leikmannsins lengi en United hefur gengið illa að skora mörk í upphafi tímabilsins. Liðið hefur skorað 9 mörk í fyrstu átta leikjum sínum en United er í tólfta sæti deildarinnar með 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert