Vonandi getum við unnið Liverpool

Harry Kane.
Harry Kane. AFP

Harry Kane, fyrirliði Tottenham, var að vonum sáttur eftir 5:0-sigurinn gegn Rauðu stjörnunni frá Serbíu í Lundúnum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

Tottenham hefur verið í basli á tímabilinu og var aðeins búið að vinna einn af síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum fyrir burst kvöldsins en Kane vonast til að sigurinn og mörkin gefi liðinu aukið sjálfstraust.

„Þetta var akkúrat það sem við þurftum, eftir slæmt gengi var þetta hið fullkomna svar frá okkur,“ sagði Kane við BT Sports eftir leik en næsta verkefni Tottenham er að heimsækja topplið Liverpool um helgina.

„Við eigum enn langt í land en vonandi getum við byggt ofan á þessa frammistöðu. Leikurinn gegn Liverpool verður erfiður en vonandi getum við unnið hann,“ bætti Kane við en hann skoraði sjálfur tvö mörk í kvöld og er því kominn með níu mörk í öllum keppnum í vetur.

mbl.is