Opnar skelfilegt fótbrot nýjar dyr fyrir Gylfa?

Cenk Tosun horfir til Gylfa Þórs Sigurðssonar eftir að hafa …
Cenk Tosun horfir til Gylfa Þórs Sigurðssonar eftir að hafa skorað jöfnunarmark sitt gegn Tottenham. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði á varamannabekk Everton fjórða leikinn í röð er liðið gerði 1:1-jafntefli við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Bjuggust margir við að Gylfi yrði í byrjunarliðinu, þar sem hann kom ekkert við sögu í deildabikarleik við Watford í síðustu viku, en svo var ekki.

Því miður spilaði fótboltinn aukahlutverk, þrátt fyrir jöfnunarmark Everton í uppbótartíma. Portúgalinn André Gomes fótbrotnaði afar illa skömmu fyrir leikslok. Sem betur fer voru sjónvarpsmennirnir á Englandi ekki á þeim buxunum að sýna atvikið oftar en einu sinni, þar sem það var ekki fyrir viðkvæma. Heung-Min Son, sem braut slysalega á Gomes, fór grátandi af velli þegar hann áttaði sig á meiðslum andstæðingsins, svo illa leit atvikið út.

Það gæti hins vegar opnað dyrnar í byrjunarliðið fyrir Gylfa á nýjan leik. Everton mætir Southampton á útivelli næstkomandi laugardag og er mjög líklegt að Gylfi verði kominn aftur á sinn stað í liðinu. Everton þarf á göldrum hans að halda, þar sem liðið er aðeins með þremur stigum meira en Southampton, sem er í fallsæti. Tottenham er í ellefta sæti með þrettán stig. Bæði hafa spilað langt undir væntingum og eru sæti knattspyrnustjóranna Mauricio Pochettino og Marco Silva orðið ansi heit.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert