Opnar skelfilegt fótbrot nýjar dyr fyrir Gylfa?

Cenk Tosun horfir til Gylfa Þórs Sigurðssonar eftir að hafa ...
Cenk Tosun horfir til Gylfa Þórs Sigurðssonar eftir að hafa skorað jöfnunarmark sitt gegn Tottenham. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði á varamannabekk Everton fjórða leikinn í röð er liðið gerði 1:1-jafntefli við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Bjuggust margir við að Gylfi yrði í byrjunarliðinu, þar sem hann kom ekkert við sögu í deildabikarleik við Watford í síðustu viku, en svo var ekki.

Því miður spilaði fótboltinn aukahlutverk, þrátt fyrir jöfnunarmark Everton í uppbótartíma. Portúgalinn André Gomes fótbrotnaði afar illa skömmu fyrir leikslok. Sem betur fer voru sjónvarpsmennirnir á Englandi ekki á þeim buxunum að sýna atvikið oftar en einu sinni, þar sem það var ekki fyrir viðkvæma. Heung-Min Son, sem braut slysalega á Gomes, fór grátandi af velli þegar hann áttaði sig á meiðslum andstæðingsins, svo illa leit atvikið út.

Það gæti hins vegar opnað dyrnar í byrjunarliðið fyrir Gylfa á nýjan leik. Everton mætir Southampton á útivelli næstkomandi laugardag og er mjög líklegt að Gylfi verði kominn aftur á sinn stað í liðinu. Everton þarf á göldrum hans að halda, þar sem liðið er aðeins með þremur stigum meira en Southampton, sem er í fallsæti. Tottenham er í ellefta sæti með þrettán stig. Bæði hafa spilað langt undir væntingum og eru sæti knattspyrnustjóranna Mauricio Pochettino og Marco Silva orðið ansi heit.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is