Van der Sar fer ekki til Man. United

Edwin van der Sar.
Edwin van der Sar. AP

Edwin van der Sar er ekki lengur einn þeirra sem kemur til greina í stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Manchester United en hann hefur skrifað undir nýjan samning hjá Ajax þar sem hann starfar sem framkvæmdastjóri.

United hefur verið að leita að einhverjum til að taka við stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu í nokkurn tíma og Van der Sar, sem spilaði í marki United um árabil, þótti ofarlega á óskalistanum.

Van der Sar spilaði í sex ár á Old Trafford og vann ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni og hann sagði í viðtali í síðasta mánuði að það væri heillandi að snúa aftur til Manchester.

„Fyrir utan konuna mína og börnin á ég tvær ástir í lífinu. Ajax, sem gaf mér mitt fyrsta tækifæri í fótbolta og Manchester United sem gaf mér frábær endalok,“ sagði Hollendingurinn við Planet Futbol í síðasta mánuði. „Auðvitað myndi ég hafa áhuga á að snúa aftur en fyrst þarf ég að læra aðeins meira hér hjá Ajax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert