Ég fór aðra leið en þeir

Virgil van Dijk með eiginkonu sinni Rike Nooitgedagt á hátíðinni …
Virgil van Dijk með eiginkonu sinni Rike Nooitgedagt á hátíðinni í París í gærkvöld. AFP

Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool og hollenska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst vera afar stoltur yfir því að hafa hafnað í öðru sæti í kjöri France Football á besta knattspyrnumanni heims. Lionel Messi sigraði í kjörinu og fékk Gullboltann, Ballon d'Or, í París í gærkvöld.

„Þetta er búið að vera stórkostlegt ár og ég var nálægt þessu en það var einn sem var betri. Sumir leikmenn eru nánast yfirnáttúrulegir og slíkan stórfengleika verður maður að virða,“ sagði Hollendingurinn við SkySports eftir kjörið.

„Ég er gríðarlega stoltur af því sem ég hef upplifað á þessu ári með Liverpool og Hollandi og vonandi getum við haldið því áfram. En það verður erfitt gegn þessum snillingum sem eru hérna samankomnir.

Ég átti aldrei von á því að vera í baráttunni um Gullboltann fyrr en ég vissi að ég væri tilnefndur. Það segir sitt um hvernig minn ferill hefur verið. Ég fór aðra leið en þeir, kom seint fram á sjónarsviðið en átti alltaf mína drauma. Ég varð að leggja gríðarlega hart að mér til að ná hverjum áfanga fyrir sig og er því afar stoltur af því að vera í þessari stöðu, og ég mun leggja hart að mér til að koma hingað aftur að ári,“ sagði Virgil van Dijk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert