Þarf ekki að gefa leikmönnum annarra liða ráð

Erling Haaland hefur skorað grimmt og er afar eftirsóttur.
Erling Haaland hefur skorað grimmt og er afar eftirsóttur. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United brá sér til Austurríkis á föstudaginn til að ræða við fyrrverandi lærisvein sinn Erling Haaland um möguleikana á að hann gangi til Manchester United, samkvæmt frétt BBC.

Hinn 19 ára gamli Haaland hóf meistaraflokksferil sinn sextán ára undir stjórn Solskjærs hjá Molde og hann hefur verið talsvert orðaður við Manchester United að undanförnu.

Solskjær var spurður eftir leikinn gegn Everton í gær hvort hann hefði gefið Haaland góð ráð fyrir framtíðina.

„Hann veit hvað hann vill og veit hvað hann ætlar að gera. Ég þarf ekki að gefa leikmönnum annarra liða ráð,“ svaraði Solskjær.

Haaland hefur skorað 28 mörk í 22 leikjum fyrir Salzburg í Austurríki á þessu tímabili, þar af átta mörk í sex leikjum í Meistaradeildinni. Hann er sagður hafa heimsótt þýsku félögin Dortmund og RB Leipzig í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert