Öruggt hjá Newcastle - Shrewsbury mætir Liverpool

Joelinton skoraði í kvöld.
Joelinton skoraði í kvöld. AFP

Newcastle United komst í kvöld örugglega áfram í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu, FA Cup. 

Newcastle vann Rochdale 4:1 á heimavelli með mörkum frá Matthew Longstaff, Miguel Almirón og Joelinton auk þess sem eitt markið var sjálfsmark. Newcastle fær nú heimaleik gegn Oxford United í fjórðu umferð.

Reading vann 2:0 útisigur á Blackpool og mætir annaðhvort Cardiff eða Carlisle. Coventry lagði Bristol Rovers að velli 3:0 og fær heimaleik gegn Birmingham, og Shrewsbury vann Bristol City 1:0. Shrewsbury er í 16. sæti í C-deild en Bristol í 9. sæti í B-deild og Shrewsbury fær nú Evrópumeistara Liverpool í heimsókn í 4. umferðinni.

Uppfært:

Tottenham er einnig komið áfram en leikur Tottenham og Middlesbrough hófst síðar en hinir fjórir. Tottenham vann 2:1 í London með mörkum frá Giovani Lo Celso og Erik Lamela á fyrsta korterinu en George Saville minnkaði muninn á 83. mínútu fyrir Boro. Tottenham leikur við Southampton á útivelli í 4. umferðinni.


 

mbl.is