Sá markahæsti ekki með á Anfield?

Hugað að meiðslum Marcusar Rashford á Old Trafford í gærkvöld.
Hugað að meiðslum Marcusar Rashford á Old Trafford í gærkvöld. AFP

Manchester United gæti verið án síns markahæsta manns þegar liðið sækir toppliðið og erkifjendurna í Liverpool heim í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudaginn.

Marcus Rashford hefur glímt við bakmeiðsli að undanförnu en var skipt inn á sem varamanni um miðjan síðari hálfleik í gærkvöld þegar United vann Wolves, 1:0, í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar á Old Trafford.

Fimmtán mínútum síðar þurfti Ole Gunnar Solskjær að taka Rashford af velli á ný en hann virtist fá högg á sig í návígi við Matt Doherty.

„Hann fékk á sig högg og gat ekki hlaupið, við skoðum hann vel næstu daga og sjáum til. Vonandi verður hann leikfær á sunnudaginn, hann hefur verið algjörlega frábær í vetur og við munum gera allt til þess að hann geti spilað. Hann hefur áður verið í vandræðum með bakið á sér og ég held að hann hafi líka fengið högg á hnéð. Hann er alltaf fljótur að jafna sig og hann spilar þótt sársaukinn sé einhver — hann getur gert það ef meiðslin eru ekki þess eðlis,“ sagði Solskjær, samkvæmt The Guardian.

Rashford hefur skorað 14 mörk fyrir United í úrvalsdeildinni í vetur og er langmarkahæsti leikmaður liðsins, en hann er í öðru til fjórða sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

mbl.is