Solskjær ber ábyrgð á stöðu Rashfords

Marcus Rashford situr meiddur á vellinum í leiknum gegn Wolves …
Marcus Rashford situr meiddur á vellinum í leiknum gegn Wolves og Anthony Martial hugar að honum. AFP

Ian Wright, fyrrverandi leikmaður Arsenal og núverandi leiklýsandi hjá BBC og ITV Sport, segir að Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, beri mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem Marcus Rashford, markahæsti leikmaður liðsins, er kominn í en horfur eru á að Rashford spili ekki næstu mánuðina vegna bakmeiðsla.

„Solskjær er undir gríðarlegri pressu að koma United aftur þar sem félagið vill vera og hann tók sjálfan sig fram yfir heilsu leikmannsins með því að láta hann spila meiddan. Hann vissi að Rashford væri tæpur, lét hann samt spila gegn Wolves, og nú er hann úr leik í þrjá mánuði,“ sagði Wright í þættinum Monday Night Club á BBC í gærkvöld.

„Nú er einn efnilegasti og mikilvægasti leikmaður liðsins úr leik og ábyrgðina á því verður stjórinn að taka á sig. Rashford hefur byrjað inni á í hverjum einasta leik og það er mikið álag þegar bakið er ekki í hundrað prósent lagi. Solskjær þarf að taka á sig sökina fyrir að nota hann svona mikið,“ sagði Wright.

Rashford hefur skorað fjórtán mörk fyrir United í deildinni í vetur og er meðal markahæstu leikmanna deildarinnar.

Manchester United leitar að sóknarmanni til að fylla skarð Rashfords og í enskum fjölmiðlum í morgun er félagið orðað við bæði Edinson Cavani, sem hefur farið fram á sölu frá París SG, og Mouessa Dembélé hjá Lyon.

mbl.is