Eriksen fundaði með Tottenham

Christian Eriksen vonast til að komast til Inter Mílanó í …
Christian Eriksen vonast til að komast til Inter Mílanó í þessum mánuði. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen gekk í gær á fund Daniels Levy, stjórnarformanns enska félagsins Tottenham Hotspur, til að ítreka þá ósk sína að ganga til liðs við Inter Mílanó, samkvæmt frétt Sky Italy.

Inter hefur ítrekað látið í ljós áhuga sinn á að kaupa Eriksen af Tottenham en José Mourinho, stjóri Tottenham, staðfesti í gær að samningar væru ekki í höfn og Daninn yrði í leikmannahópi liðsins gegn Norwich í kvöld.

„Eriksen er frábær leikmaður, við bíðum og erum enn vissir um að þessi kaup munu ganga eftir,“ sagði Giuseppe Marotta framkvæmdastjóri Inter við Sky Italy, sem segir að umboðsmaður Eriksens muni hitta Levy eftir leikinn við Norwich til að reyna að komast að samkomulagi við enska félagið.

mbl.is