Bikarmeistararnir öruggir áfram

Leikmenn City fagna marki Gabriel Jesus á Etihad í dag.
Leikmenn City fagna marki Gabriel Jesus á Etihad í dag. AFP

Bikarmeistarar Manchester City unnu öruggan 4:0-heimasigur á Fulham í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu á Etihad-leikvanginum í dag. Meistararnir fengu vítaspyrnu snemma leiks og leikmaður Fulham, sem leikur í B-deildinni, fékk rautt spjald. Gerði þetta strax út um leikinn.

Tim Ream braut afar klaufalega á Gabriel Jesus á aðeins sjöttu mínútu leiksins og fékk verðskuldað rautt spjald en hann var aftasti varnarmaður og rændi Brasilíumanninn upplögðu marktækifæri. Þjóðverjinn Ilkay Gündogan steig á punktinn og skoraði örugglega úr vítaspyrnunni.

Ef viðureignin var ekki leikur kattarins að músinni fyrir þessa hörmungarbyrjun B-deildarliðsins, þá var hún það núna. Bernardo Silva bætti við marki fyrir City á 19. mínútu og heimamenn voru í þægilegri stöðu allt til enda. Þeir voru 70% með boltann og áttu yfir 20 marktilraunir gegn einni og Jesus bætti við tveimur mörkum með tveggja mínútna millibili í síðari hálfleik til að innsigla sigurinn.

City er þar með komið í 16-liða úrslit og á því enn möguleika á að verja bikarmeistaratitilinn en liðið vann Watford, 6:0, í úrslitunum á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert