Héldu leynifund í Þýskalandi

Leroy Sané gæti verið á förum til Þýskalands.
Leroy Sané gæti verið á förum til Þýskalands. AFP

Forráðamenn þýska knattspyrnufélagsins Bayern München héldu leynifund í Þýskalandi á dögunum ásamt umboðsmönnum Leroy Sané, sóknarmanns Manchester City, en það eru þýskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Sané er 24 ára gamall en hann hefur nánast ekkert spilað með City á tímabilinu vegna hnémeiðsla sem hann varð fyrir í fyrsta leik á leiktíðinni.

Sané var sterklega orðaður við Þýskalandsmeistarana allt síðasta sumar en Bæjarar voru ekki tilbúnir að borga þær 150 milljónir evra fyrir leikmanninn sem City vildi fá. Sané verður hins vegar samningslaus, sumarið 2021, og því gætu forráðamenn City freistast til þess að selja leikmanninn í sumar á meðan þeir fá eitthvað fyrir hann.

Sané kom til City frá uppeldisfélagi sínu Schalke í ágúst 2016. Hann er tvívegis orðið enskur meistari með liðinu, einu sinni bikarmeistari og tvívegis deildarbikarmeistari. Þá var hann valinn besti ungi leikmaðurinn á Englandi, tímabilið 2017-18. Sané er metinn á 100 milljónir evra í dag en hann hefur skorað 39 mörk í 134 leikjum fyrir City.

mbl.is