Erfitt að klára deildakeppnirnar

Fabio Cannavaro hefur búið í Kína frá árinu 2016.
Fabio Cannavaro hefur búið í Kína frá árinu 2016. AFP

Fabio Cannavaro, fyrrverandi fyrirliði ítalska landsliðsins í knattspyrnu og núverandi stjóri Guangzhou Evergrande í Kína, telur að það verði mjög erfitt fyrir lönd í Evrópu að klára sínar deildarkeppnir vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á álfuna. Cannavaro hefur búið í Kína frá árinu 2016 þar sem kórónuveiran á upptök sín.

„Ég held að þetta ástand muni vara í ansi langan tíma í löndum eins og Ítalíu og á Spáni,“ sagði Cannavaro í samtali við ítalska fjölmiðla. „Ég sé ekki alveg hvernig liðin ætla sér að klára tímabilið áður en það á að vera búið og næsta tímabil á að hefjast. Það verður mjög erfitt að klára allar stærstu deildarkeppnirnar.“

„Lífið í Gungzhou er loksins að ná einhverju jafnvægi aftur eftir veiruna. Samkomubönnum og útgöngubönnum hefur verið aflétt og þeir sem koma til landsins núna þurfa að fara í fjórtán daga sóttkví, annars er allt eðlilegt. Fólk þarf að fylgja eftir fordæmi Kínverja og hvernig þeir tóku á veirunni og það mikilvægasta er að halda sig heima,“ bætti Cannavaro við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert