Leikmenn, þjálfarar og stjórnarmenn lækka í launum

Marcelo Bielsa er knattspyrnustjóri Leeds.
Marcelo Bielsa er knattspyrnustjóri Leeds. AFP

Enska knattspyrnufélagið Leeds United staðfesti í dag að leikmenn, þjálfarar og stjórnarmenn félagsins hefðu boðist til að taka á sig launalækkun vegna kórónuveirunnar.

Með því vilja þeir tryggja að hægt sé að halda áfram að greiða starfsfólki félagsins laun og tryggja störf þess en samtals er þar um 272 fastráðna starfsmenn að ræða, auk fjölda lausráðinna starfskrafta sem vinna m.a. á leikdögum liðsins.

Í yfirlýsingu frá leikmönnum liðsins segir: „Leeds United er ein fjölskylda, sú menning hefur þróast með tilstilli allra í félaginu, frá leikmönnum, stjórn og starfsliði til stuðningsfólksins í stúkunni. Við lifum á óvissutímum og þessvegna er nauðsynlegt að við stöndum öll saman um að finna leið til þess að félagið komist í gegnum þetta og lokið þessu tímabili á þann hátt sem við vonumst öll eftir. Á meðan skulum við öll sem eitt hlusta á ráðleggingar ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisyfirvalda og vinna þessa veiru."

Leeds, undir stjórn Argentínumannsins Marcelo Bielsa, er í góðri stöðu á toppi ensku B-deildarinnar, sjö stigum fyrir ofan Fulham sem er í þriðja sætinu þegar níu umferðum er ólokið. Leeds hefur ekki leikið í úrvalsdeildinni í sextán ár.

mbl.is