Ótrúleg sigurganga ógild - enska knattspyrnusambandið kært

Þessi skilaboð má sjá við marga enska knattspyrnuvelli um þessar …
Þessi skilaboð má sjá við marga enska knattspyrnuvelli um þessar mundir. AFP

Enska knattspyrnusambandið virðist eiga yfir höfði sér nokkrar málsóknir í kjölfar þess að ákveðið var að slá af alla keppni í neðstu deildum landsins og lýsa yfirstandandi tímabili loknu án þess að lið færist á milli deilda.

Þar er um að ræða allar karladeildir fyrir neðan þær sex efstu, sem sagt áhugamannadeildirnar víðs vegar í landinu, og kvennadeildirnar sem eru fyrir neðan tvær þær efstu.

South Shields varð fyrsta félagið til að lýsa yfir því að það myndi kæra niðurstöðuna. Liðið er efst í Norður-úrvalsdeildinni, North Premier Division, sem er hluti af sjöundu efstu deild Englands, og var á hraðleið upp um deild, tólf stigum á undan næsta liði sem er FC United of Manchester, liðið sem ósáttir stuðningsmenn Manchester United stofnuðu á sínum tíma.

Geoff Thompson, stjórnarformaður South Shields, segir að félagið hafi fjárfest gríðarlega á mörgum sviðum með það að markmiði að vinna sig upp um deild og að ákvörðun knattspyrnusambandsins sé þungt áfall.

Annað félag sem hefur lýst yfir því að það hyggist leita réttar síns er Jersey Bulls frá Ermarsundseyjunni Jersey. Það hefur haft fádæma yfirburði í B-deild Combined Counties Football League, tíundu efstu deild á Englandi, og unnið alla 27 leiki sína á keppnistímabilinu.

Jersey Bulls var þegar búið að tryggja sér sæti í næstu deild fyrir ofan en hefur nú fengið þann úrskurð knattspyrnusambandsins í höfuðið að sigurganga vetrarins hafi verið til einskis því það verði að hefja næsta tímabil í sömu deild og áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert