Knattspyrnumenn gerðir að blórabögglum

Wayne Rooney.
Wayne Rooney. AFP

Yfirvöld á Bretlandi og enska úrvalsdeildin eru að gera knattspyrnumenn að blórabögglum með umtali um fyrirhugaða launalækkun þeirra. Þetta skrifaði Wayne Rooney í tilfinningaríkum pistli í Sunday Times í morgun en þar segir hann framgöngu yfirvalda vera svívirðilega.

Rooney, sem leikur með Derby í B-deildinni í dag, er fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins og Manchester United en hann telur kollega sína auðvelt skotmark. Mikið hefur verið skrifað undanfarið um fyrirhugaða 30% launalækkun allra leikmanna úrvalsdeildarinnar en heilbrigðisráðherra Bretlands heimtaði meðal annars að leikmenn lækkuðu sig í launum.

„Ef yfirvöld myndu biðja mig að styrkja hjúkrunarkonur fjárhagslega eða kaupa öndunarvélar, þá myndi ég glaður gera það, svo lengi sem ég veit hvert peningarnir fara,“ skrifaði Rooney í pistli sínum en hann segist viljugur til að leggja fram hjálparhönd.

„Ég er í þeirri stöðu að geta fórnað einhverju til að hjálpa en það eru ekki allir í sama báti. Engu að síður hefur öll atvinnugreinin orðið að skotmarki skyndilega og framkoman undanfarna daga hefur verið svívirðileg,“ bætti Rooney við og beindi svo spjótum sínum að Matt Hancock heilbrigðisráðherra.

„Hann átti að vera gefa þjóðinni nýjustu upplýsingar um stærstu heimskrísu lífs okkar, af hverju var hann að hugsa um knattspyrnumenn? Var hann svo örvæntingarfullur að draga athyglina frá því hvernig ríkisstjórn hans hefur höndlað þetta ástand?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert