Staðfestir að hann sé með kórónuveiruna

Adrian Mariappa í leik með Watford.
Adrian Mariappa í leik með Watford. AFP

Adrian Mariappa, varnarmaður Watford, hefur staðfest að hann sé sá leikmaður liðsins sem greindist með kórónuveiruna í vikunni.

Sex smit greindust meðal þriggja liða í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar allir leikmenn og starfsfólk liðanna 20 voru sett í próf. Fram hefur komið að þrír þeirra séu frá Watford, þar af tveir úr starfsliði, og aðstoðarstjórinn Ian Woan hjá Burnley.

Mariappa er 33 ára gamall Jamaíkumaður, fæddur í London, og hefur leikið tæplega 300 deildaleiki með uppeldisfélaginu Watford, fyrst frá 2005 til 2012 og síðan frá árinu 2016. Hann á 49 landsleiki að baki fyrir Jamaíku.

mbl.is