Tel okkur vera örugga en virði skoðanir hinna

Jordan Henderson er ánægður með að vera kominn á æfingar …
Jordan Henderson er ánægður með að vera kominn á æfingar á ný. AFP

Jordan Henderson fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Liverpool kveðst vera himinlifandi yfir því að æfingar skuli vera byrjaðar á nýjan leik og telur sig mjög öruggan á æfingasvæði félagsins.

Leikmenn Liverpool hófu æfingar í gær eftir tveggja mánaða hlé vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þeir eru með 25 stiga forystu á toppi úrvalsdeildarinnar og þurfa aðeins tvo sigra í síðustu níu leikjunum til að gulltryggja félaginu fyrsta meistaratitilinn í þrjátíu ár. Vonast er til þess að keppni í deildinni geti haldið áfram um miðjan júní.

„Það er frábært að koma aftur og hitta strákana, koma boltunum út á völl og byrja að sparka á milli. Ég er búinn að hlakka til þess í nokkurn tíma og held að svipað sé með flesta aðra,“  sagði Henderson í viðtali við Sky Sports í dag.

Leikmenn Liverpool og starfslið héldu sambandi allan tímann í gegnum tölvufundi og skilaboð en Henderson kvaðst hafa saknað félagsskaparins.

Jordan Henderson á leið af æfingu Liverpool í gær.
Jordan Henderson á leið af æfingu Liverpool í gær. AFP

„Maður hefur saknað þess að fíflast aðeins í félögunum. Maður hefur saknað þess að búa sig undir leiki. Maður hefur saknað þess að æfa af krafti og búa sig undir leik um helgina eða í næstu viku. Maður hefur saknað alls þess daglega sem fylgir fótboltanum. En við erum afar lánsamir með að vera fótboltamenn og í þessari stöðu. Stundum tekur maður því sem sjálfsögðum hlut en á svona tímum áttar þú þig á því hversu heppinn þú ert,“ sagði Henderson.

Þurfum að ljúka tímabilinu

Hann kvaðst áfram fullviss um að það væri rétt að ljúka tímabilinu með því að spila alla leiki. „Ég er á sömu skoðun og þegar hléið var gert, mér fannst við alltaf þurfa að ljúka  tímabilinu á einhverjum tímapunkti, hvenær svo sem það væri öruggt að byrja aftur að spila. Ég hef því einbeitt mér að því að halda mér í eins góðu formi og mögulegt er, því þegar að því kemur að við byrjum að spila á ný verð ég að vera klár í slaginn, og sama er að segja um liðsfélagana. Við þurfum að vera tilbúnir til að sýna okkar bestu hliðar þegar við spilum aftur og ljúka tímabilinu eins vel og við höfum gert í allan vetur. Þetta hefur verið okkar hvatning í hléinu, æfa og halda okkur í sem bestu formi,“ sagði fyrirliðinn.

Ýmsum ráðum var beitt til að geta séð leikmenn Liverpool …
Ýmsum ráðum var beitt til að geta séð leikmenn Liverpool æfa á Melwood í gær! AFP

Henderson sagði að sér og samherjum sínum liði mjög vel á æfingasvæði félagsins, Melwood, og þar hefði allt umhverfið verið gert öruggt og þægilegt.

Öryggisráðstafnir í hæsta gæðaflokki

„Ég er mjög sáttur við allar þær varúðarráðstafanir sem úrvalsdeildin og félagið hafa gripið til, og sama er að segja um liðsfélagana. Okkur finnst við vera öruggir hérna og þess vegna erum við mættir. Varðandi næstu skref munum við að sjálfsögðu hlýða sérfræðingunum og læknunum sem vita allt miklu betur en við. Í síðustu viku ræddum við saman, fyrirliðarnir í liðunum, og ég held að deildin og félögin séu að gera allt sem mögulegt er til að gæta öryggis. Prófanir, hitamælingar, fjarlægðarmörkin, sótthreinsanir — þetta hefur allt saman verið í hæsta gæðaflokki,“ sagði Henderson.

Hann kvaðst virða algjörlega skoðanir leikmanna sem teldu ekki óhætt að snúa aftur en Troy Deeney fyrirliði Watford og N'Golo Kanté hjá Chelsea vilja ekki hefja æfingar að svo stöddu vegna smithættu.

„Ég skil og virði þeirra afstöðu fullkomlega. Aðstæður leikmanna eru mismunandi, hvað heimili og fjölskyldu varðar. Ef þér finnst þú ekki vera öruggur á ekki að neyða þig til að mæta í vinnuna. Ég virði algjörlega þá sem ekki eru tilbúnir og vona að þeir virði líka mína afstöðu og okkar hinna sem erum mættir aftur og teljum okkur örugga. Ef einhver liðsfélaga minna væri í þeirri stöðu að telja sig ekki öruggan myndi ég styðja hann heilshugar,“ sagði Jordan Henderson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert