Wenger vildi láta banna innköstin okkar

Tony Pulis stjórnaði Stoke um árabil.
Tony Pulis stjórnaði Stoke um árabil. AFP

Tony Pulis, sem var knattspyrnustjóri Stoke City um árabil, segir að Arsene Wenger kollegi hans hjá Arsenal hafi verið orðinn svo þreyttur á tapleikjum gegn Stoke að hann hafi viljað láta leggja niður innköst.

Arsenal, undir stjórn Wengers, tapaði fimm sinnum í átta heimsóknum til Stoke í úrvalsdeildinni á árunum 2008 til 2014. Stoke beitti óspart gríðarlega löngum innköstum frá Rory Delap og Pulis sagði í viðtali við BBC að Wenger hefði ekki ráðið við þau.

Wenger sagði m.a. á þessum tíma að varla væri hægt að tala um fótbolta lengur þegar Stoke ætti í hlut. Þetta væri orðið eins og ruðningur gagnvart markvörðum.

Pulis kvaðst hafa verið afar ánægður með þessi ummæli Frakkans. „Ég var alltaf að leita að einhverju til að æsa leikmennina upp, koma þeim í gírinn, og um leið til að trekkja upp stuðningsmennina.

Arsene Wenger þoldi ekki að spila á móti Stoke.
Arsene Wenger þoldi ekki að spila á móti Stoke. AFP

Þegar Wenger fyrst kallaði okkur ruðningslið vorum við nýbúnir að vinna þá í þriðja sinn á heimavelli í röð. Hann var að forðast að svara spurningunni um hvernig lið sem væri miklu hæfileikaminna en Arsenal, eyddi miklu minni peningum en Arsenal, hefði ekki aðstöðu og möguleika sem Arsenal hefði, færi að því að vinna Arsenal aftur og aftur,“ sagði Pulis.

„Patrick Vieira (fyrrverandi fyrirliði Arsenal) sagði mér að þeir hefðu hatað að fara til Stoke. Við hefðum verið eina liðið sem Wenger hefði virkilega rætt um við leikmennina og undirbúið sérstaklega að mæta. „Við gátum bara ekki unnið ykkur,“ sagði hann.

Eitt árið kvartaði Wenger yfir því að grasið á vellinum hjá okkur væri of loðið og skrifaði bréf til knattspyrnusambandsins. Dómarinn og aðstoðardómararnir urðu að mæta grasið. Ég veit að hann talaði um að leggja niður innköst og sagði að þau ættu ekki að vera leyfð. Við vorum ofsakátir með að heyra þetta,“ sagði Pulis.

Hann sagði að það hefði verið tilviljun að hann hefði farið að beita innköstunum hjá Rory Delap sem svona beittu vopni.

„Við komumst að því að Rory gæti kastað svona langt þegar leikmennirnir fóru í keppni sín á milli. Hann tók boltann upp og kastaði honum alla leið að stönginni fjær. Ég hafði aldrei séð þetta áður. Boltinn þaut í beinni stefnu. 

Við tókum hann á eintal og spurðum út í þetta og þá kom í ljós að hann hafði verið meistari í spjótkasti þegar hann var í skóla. Við þróuðum þetta áfram og notuðum innköstin hans sem stórkostlegt vopn. Við duttum niður á þetta. Nú er Liverpool með sérstakan innkastsþjálfara — þegar við notuðum Rory vorum við rakkaðir niður,“ sagði Pulis sem stýrði Stoke frá 2002 til 2005, þá undir stjórn íslenskra eigenda, og svo aftur frá 2006 til 2013.

„Strax og ég sá hann gera þetta hugsaði ég með mér að í hvert einasta skipti sem við kæmumst framarlega á völlinn myndum við beita því. Þetta er eins og að fá átta til níu hornspyrnur aukalega í hverjum leik. Þetta hafði sálfræðileg áhrif á liðin. Við heimsóttum West Ham og þeir stilltu upp auglýsingaskiltum til að reyna að stöðva hann — þá kastaði hann bara fyrir aftan skiltin. Samt kastaði hann þvert fyrir markið!“ sagði Tony Pulis.

Innköstin hjá Rory Delap

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert