Breytingar væntanlegar hjá Chelsea

Chelsea gæti mætt með breytt lið á næstu leiktíð.
Chelsea gæti mætt með breytt lið á næstu leiktíð. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea á Englandi, er staðráðinn í að bæta upp fyrir rólegan janúarfélagsskiptaglugga og kaupa leikmenn þegar glugginn opnar á ný. Chelsea bætti ekki við sig leikmanni í janúar, sem samkvæmt Daily Mail pirraði Lampard. 

Ungir leikmenn hafa verið í sviðsljósinu síðan Lampard tók við Chelsea fyrir tímabilið, en enski stjórinn vill fá reynslumeiri leikmenn til félagsins. Chelsea hefur þegar gengið frá kaupum á Hakim Ziyech frá Ajax og þá hafa Philippe Coutinho og Timo Werner einnig verið orðaðir við félagið. 

Willian og Pedro verða samningslausir eftir tímabilið og er ljóst að þeir verða ekki áfram hjá Chelsea. Enski miðilinn segir Lampard vilja bæði Coutinho og Werner, en þeir hafa verið orðuð við önnur félög og Werner m.a. sterklega orðaður við Liverpool. 

Chelsea er sem stendur í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 48 stig, þremur stigum meira en Manchester United, og í hörðum slag um sæti í Meistaradeild Evrópu. 

mbl.is